Haukur Heiðar Ingólfsson
Настоящее имя: Haukur Heiðar Ingólfsson
Об исполнителе:
Haukur Heiðar Ingólfsson. Iclandic Pianist. Haukur Heiðar Ingólfsson, píanóleikari og heimilislæknir í Hafnarfirði hefur sent frá sér fjölda vinsælla platna sl. 30 ár. Hann fagnaði sjötugsafmæli á árinu 2012 og gefur af því tilefni út nýja plötu, sína fyrstu í 8 ár. Í inngangsorðum plötunnar skrifar Ásgeir Tómasson: "Haukur Heiðar Ingólfsson er maður eigi einhamur. Jafnframt því að sinna heimilislækningum og öðrum heilbrigðisstörfum um áratugaskeið hefur hann átt farsælan tónlistarferil. Upphafið má rekja til Akureyrar á síðari hluta sjötta áratugar síðustu aldar þegar Haukur stofnaði eigin danshljómsveit og lék á vinsælustu veitingastöðum bæjarins. Fyrir tæplega hálfri öld hóf hann að vinna með skemmtikraftinum og söngvaranum Ómari Ragnarssyni og tók með honum þátt í að hljóðrita fyrstu hæggengu hljómplötuna sem tekin var upp hér á landi með áheyrendur í sal. Hinn eiginlegi útgáfuferill Hauks Heiðars hófst árið 1984, þegar hann sendi frá sér hljómplötuna Með suðrænum blæ. Hún hefur tvívegis verið endurútgefin og er ófáanleg. Sömu sögu er að segja um hljómplöturnar sem fylgdu í kjölfarið, Suðrænar perlur (1995), Á ljúfum nótum (1999), Mánaskin (2001) og Glitra gullin ský (2004). Á fyrstu tveimur plötunum var blandað saman sungnum lögum og ósungnum, en á þeim þremur sem á eftir komu var einungis ósungin tónlist þar sem Haukur lék á slaghörpuna með völdum hópi hljómlistarmanna, þar á meðal hinum fjölhæfa Árna Scheving sem annaðist með honum útsetningar. Með nýjustu plötunni, Á rómantískum nótum, má segja að Haukur snúi aftur til upphafsins. Helmingur laganna sextán er ósunginn. Hin syngja börn Hauks, þau Margrét og Haukur Heiðar yngri, og einnig Ómar Ragnarsson og Björgvin Halldórsson. Með tilkomu Björgvins má einnig segja að snúið sé til upphafsins því að hann söng einmitt þrjú lög á fyrstu plötunni, stýrði hljóðritun hennar og var raunar helsti hvatamaður þess að Haukur Heiðar hóf að hljóðrita tónlist til útgáfu.